Hlutföll púpu

Þegar lagt er af stað í að hanna og hnýta púpu, þá er góð regla að hafa eitt grundavallaratriði í huga; púpur sækja sér fyrirmyndir til náttúrunnar. Þrátt fyrir fjölbreytileika skordýra, þá eru þau flest bundin af mjög fyrirfram ákveðnum hlutföllum.

Skottið er jafn langt búkinum í heild sinni sem jafngildir lengd öngulleggs að frádregnum haus flugunnar. Haus flugunnar getur verið nokkuð misstór, en yfirleitt á bilinu 1,5 mm til 3,0 mm. Fálmarar eða fætur púpunnar eru yfirleitt jafn langar skotti hennar. Það sem eftir er af búk púpunnar skiptist jafnt á milli fram- og afturbols hennar.

Hlutföll þurrflugu

Ef maður ætlaði sér að setja fram eina rétta lýsingu á hlutföllum í þurrflugu þá yrðu undantekningarnar frá ‘reglunni’ væntanlega fleiri heldur en góðu hófi gegndi.  Með þokkalegri nálgun má samt setja eftirfarandi teikningu saman og reyna að lýsa því sem skiptir helst máli í þurrflugu.

Skott hefðbundinnar þurrflugu er jafn langt búk hennar sem nær óskiptur frá haus og aftur að bug önguls. Sé flugan með væng, er hann sjaldnast lengri heldur en öngulleggurinn. Hringvöf flugunnar ættu aftur á móti alls ekki að vera lengri heldur en búkur flugunnar, oft ekki lengri en sem nemur öngulbili króksins.

Hlutföll straumflugu

Straumflugur, eru það ekki bara ofvaxnar votflugur? Nei, ekki alveg, því hlutföllin í straumflugu eru í raun allt önnur en votflugu og þar af leiðandi hagar straumflugan sé öðruvísi þegar í vatn er komið.

Fyrir það fyrsta, þá er skegg straumflugunnar nokkru styttra heldur en votflugunnar, ekki lengra heldur en nemur öngulbili króksins. Skott straumflugu er ekki nema helmingur búksins en þar kemur á móti að lengd vængs er jöfn búki flugunnar að viðbættu skottinu. Vænglengd straumflugu getur því verið nokkuð mikil sé hún hnýtt á legglangan krók.

Hlutföll votflugu

Vængjaðar votflugur hafa fylgt ákveðnum hlutföllum svo lengi sem þær hafa fundist í fluguboxum veiðimanna. Með tíð og tíma hefur ýmislegt breyst í efnisvali, ný hnýtingarefni skotið upp kollinum og auðvitað hafa hnýtarar prófað sig áfram með notkun þess í votflugur, en eftir stendur að hlutföll flugunnar hafa nánast haldist óbreytt.

Skott klassískrar votflugu er nánast jafn langt og búkur hennar sem nær frá haus og aftur að öngulbug. Skegg votflugunnar nær yfirleitt frá haus og að önguloddi. Vængur flugunnar er jafn langur legg öngulsins, staðall sem markar sérkenni votflugna og aðskilur þær frá frænku þeirra, straumflugunni sem yfirleitt er með öllu lengri væng.

Konunglegar flugur

Það verður nú ekki annað sagt en veiðimenn hafa sinn háttinn á flugum og flugnavali, svona yfirleitt. Raunar er það þannig að margir veiðimenn, ég þeirra á meðal, festa sig oft í að veiða fiskana sem veiddir voru í fyrra, í síðasta mánuði eða einfaldlega í gær. Við leitum ráða um veiðistaði, aðferðir og flugur hjá þeim sem hefur gengið best á tilteknum stað og svo öpum við þetta allt eftir og verðum bara sárir þegar ekkert gengur hjá okkur. Því miður gleymum við að uppfæra leiðbeiningarnar miðað við breyttar aðstæður, annan árstíma eða þá einfaldlega að okkar eigin stíl.

Um daginn las ég grein um þá mætu flugu Royal Coachman. Þar sagði mætur veiðimaður að Royal Coachman hefði verið hönnuð til veiða í straumvatni og þar virkaði hún, aðeins. Það þarf að vísu ekkert að koma mér á óvart að viðkomandi veiðimaður hefur aldrei séð til veiðifélaga míns, en mér er til efs að hún hafði haft hugmynd um þessa takmörkun á notagildi flugunnar þegar hún hefur verið að kippa hverjum fiskinum á fætur öðrum upp úr spegilsléttum stöðuvötnunum hér á Íslandi.

Royal Coachman

En satt er það að Royal Coachman hentar vel til veiði í straumvatni vegna þess hve hástæð flugan er. Hún er sérstaklega bústinn af þurrflugu að vera, búkurinn vel klæddur (e: dressed) peacock fjöðrum og vængurinn mikill. Rauður liturinn á búknum dregur síðan til sín athygli fisksins, flugan er það sem kallað hefur verið glepja.

Upphaflega var þessi fluga votfluga sem Tom Bosworth setti fram um árið 1820. Það er með þá flugu, rétt eins og aðrar þekktar og gjöfular flugur að hún hefur eignast afkomendur, en sjaldan hafa afkomendurnir orðið jafn lítið frábrugðnir forföðurnum. Fyrsta afbrigði hennar var væntanlega stærsta stökkið. Það átti bandaríkjamaðurinn John Haily sem útfærði hana sem þurrflugu árið 1878, þá með skotti úr Brúðönd (e: wood duck) og uppmjóum hvítum vængbroddi. Þetta upphaflega skott vék ekki fyrir Pheasant Tippets fyrr en í upphafi 20. aldar þegar Brúðönd fækkaði snarlega í Bandaríkjunum.

Það var aftur á móti Edward R. Hewitt sem bar ábyrgð á því að sleppa hvíta vængnum algjörlega og setja hvítt hringvaf fyrir framan það brúna í staðinn. Sú útgáfa fékk nafnið Royal Coachman Bivisible.

Næstu tilraun til úrbóta, svo vitað sé, átti Theodore Gordon á tíunda áratug 19. aldar þegar hann skipti upphaflega hvíta vængbroddinum út fyrir hvítan væng úr andafjöður sem hann lét vísa örlítið út til hliðanna. Sú útfærsla fékk ekkert sérstakt heiti að því er best er vitað og fljótlega fóru hnýtarar að leggja þessa útfærslu Gordon‘s að jöfnu við útfærslu John Haily. Samkvæmd beiðni Leslie Petrie útbjó Gordon aftur á móti annað afbrigði flugunnar þegar hann skipti rauða silkinu út fyrir gult og gekk sú fluga lengi undir nafninu Royal Petrie

Eitt þekktasta afbrigði þessarar flugu setti Lee Wulff fram upp úr 1930 þegar hann bætt enn á hana og skipti hvítu toppfjöðrinni út fyrir kálfhala og notaði brúnan kálfhala í skottið, ekki mikil breyting að vísu en dugði til þess að hún fékk nafnið Royal Wulff.

Royal Wulff

Það vita væntanlega færri að rétt um það bil sem sem Lee Wulff gerði þessa breytingu á Royal Coachman, þá var annar veiðimaður vestur í Bandaríkjunum að fikra sig áfram með næstum nákvæmlega sömu útfærslu. Eini munurinn var sá að hann lét kálfhalann ekki standa beint upp, heldur skipti honum í tvennt og lét hann vísa örlítið til sitt hvorrar hliðar flugunnar. Þessi maður hét Q.L. Quackenbush og hann fékk Reuben Cross til að hnýta þessa útfærslu. Cross vildi endilega skíra hana Quack Royal, en frásagnir herma að Quackenbush hafi lagst gegn þessari nafnagift þegar Lee Wulff kom fram með sína útfærslu. Af þessu má ráða að Quackenbush hafi verið örlítið á undan Lee með þessa hugmynd.

Royal Trude

Það var síðan árið 1960 að Carter Harrisson grínaðist eitthvað með Royal Wulff og hnýtti hvítan kálfhalavæng og lét hann vísa beint aftur í stað út eða upp. Þessi útgáfa hefur gengið undir nafninu Royal Trude og þykir ákveðið afturhvarf til votflugunnar vegna þess að hana veiða menn jöfnum höndum sem votflugu og þurrflugu.

Ég er ekki neinn ættfræðingur, en þetta eru þau skilgetnu og óskilgetnu afkvæmi Royal Coachman sem ég fann í bókum og á netinu þegar ég fór að grúska svolítið. Eflaust eru afbrigðin fleiri og margir spreytt sig á að útfæra þessa flugu í gegnum árin.

Og hvað á barnið að heita?

Af fyrri ummælum mínum hér á síðunni mætti ráða að ég sé alltaf hreint á vefnum. Þetta má örugglega til einhvers sannsvegar færa og í haust sem leið var ég svolítið á vefnum að leita að ákveðnum krókum til fluguhnýtinga. Væntanlega hafa lesendur líka rekist á þann aragrúa af krókum sem eru framleiddir nú til dags, ég í það minnsta fór eiginlega í smá baklás þegar myndaleit skilaði mér allt of miklum niðurstöðum og það var eiginlega alveg sama hvað ég reyndi að þrengja leitina, niðurstöðurnar urðu alltaf, allt of margar.

Þegar upp var staðið, þá var það eitt umfram annað sem hjálpaði mér að þrengja leitina. Það var það heiti sem einhver ókunnur aðili hafði gefið beygjunni á krókinum. Reyndar vandaðist málið aðeins þegar það rann upp fyrir mér hve margar útfærslur framleiðendur höfðu á því að beygja krókana. Því safnaði ég saman myndum af nokkrum þeim helstu sem ég rakst á og birti hér, ef það gæti orðið öðrum til hjálpar.

Í grunninn skiptast krókar í tvær fylkingar. Annars vegar eru það J krókar, einfaldlega vegna þess að þeir líkjast bókstafnum J og hins vegar eru það circle krókar sem eru nánast beygðir í hring. Margir framleiðendur hafa síðan haldið í gömlu heitin sem ákveðnum bug (beygju) var gefin eftir því hver fann upp á honum, hvaðan hann er upprunninn eða hvar hann var vinsælastur.

Aberdeen krókurinn var upphaflega notaður til fiskveiða í sjó og þá helst fyrir flatfisk. Hann var framleiddur úr nokkuð deigum málmi þannig að ætt var við að hann rétti úr sér, en að sama skapi var auðvelt að koma honum í upprunalegt form. Þetta einfalda sköpulag hefur aftur á móti verið notað í mjög margar tegundir flugukróka.
Bartleet á uppruna sinn að rekja til Partridge sem enn þann dag í dag framleiðir þessa klassísku laxakróka. Helst hafa þeir verið notaðir Spey og Dee flugur.
Kendal króka má þekkja á örlítið uppsveigðum oddinum, en sjálfum buginum svipar mjög til Aberdeen króka.
Limerick krókar voru um árabil vinsælastu votflugukrókarnir. Upphaflega voru stærri flugur líka hnýttar á þennan krók, en þegar York og Bartleet krókarnir komu fram, tóku þeir að mestu yfir þær flugur enda lá þessi bugur undir því ámæli að hann ætti það til að brotna við átak þar sem hann er krappastur.
O’Shaughnessy krókar eru yfirleitt gerðir úr nokkuð sverum og þungum vír. Bugurinn er ekki ósvipaður Limerick, en krappa hornið er heldur víðara.
Sneck bugurinn er auðþekkjanlegur á skörpum hornum bugsins. Hér á landi hafa krókar með þessu lagi yfirleitt gengið undir heitinu Ýsukróar, sem reyndar hefur færst yfir á króka með gervibeitu hin síðari ár.
Viking krókunum svipar glettilega mikið til Kendal og má næstum segja að engin munur sér á þessum tveimur gerðum.
York krókar hafa í gegnum tíðina helst verið notaðir í laxaflugur. Fallegir krókar og eru trúlega elstir þeirra sem hafa viðlíka sköpulag.