Nú er rétt tæp vika liðin af Febrúarflugum og flugurnar eru komnar vel yfir 300 og meðlimum hópsins hefur fjölgað úr 700 í 796. Af þessum 796 meðlimum hópsins á Facebook hafa rúmlega 90 sett inn myndir af flugum, þeir duglegustu á hverjum degi, aðrir eitthvað færri. Það er e.t.v. ekki fjöldinn sem skiptir máli, en vissulega alltaf gaman að sjá sem flestar flugur af öllum mögulegum gerðum.
Það er áberandi hve yngri meðlimum hefur hlutfallslega fjölgað mest það sem af er mánaðarins. Þetta gleður FOS.IS alveg sérstaklega því þetta er skýrt merki þess að það er bjart, ef ekki skjannabjart, framundan í fluguhnýtingum á Íslandi. Eina sem mætti mögulega setja út á í þessum tölum er rýr hlutur kvenna. Við þykjumst vita að mun fleiri konur hnýti flugur heldur en þessi 5% og það væri gaman að sjá fleiri í hópinum.
Viðbrögð þeirra sem fylgjast með framlagi hnýtara hafa heldur ekki látið á sér standa. Vinsælustu færslurnar hafa fengið allt að 120 þumla og yfir 20 ummæli, öll vinsamleg og uppbyggjandi.
Eins og endranær er flugunum bætt inn í myndasafn á FOS.IS nokkuð reglulega þannig að fleiri en Facebook notendur geti notið þeirra meistarastykkja sem koma fram í mánuðinum.