Árið 2018 skráðu 247 einstaklingar sig inn á Febrúarflugu hópinn á Facebook og nutu þar 523 flugna sem 62 hnýtarar birtu þar í mánuðinum. Haldin voru fimm Febrúarflugukvöld í Árósum, félagsheimili Ármanna og rúmlega 200 gesti bar þar að garði. Enn eitt árið voru því öll fyrri met þessa átaks slegin, því aldrei áður hafa jafn margar flugur verið lagðar fram af jafn mörgum hnýturum, né notið áhorfs jafn margra.

Viðurkenningar sem veittar voru heppnum hnýturum fyrir þátttökuna hafa trúlega aldrei verið veglegri og vitaskuld kunnum við öllum styrktaraðilum okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn og allan velvilja sem þeir hafa sýnt þessu átaki okkar. Kærar þakkir fyrir, allir sem styrktu okkur, komu að og tóku þátt í þessu átaki okkar þetta árið. Við erum endalaust þakklát fyrir það að geta staðið að þessu með jafn miklum velvilja allra. Hér að neðan má sjá nöfn þeirra heppnu og þær viðurkenningar sem féllu þeim í skaut þetta árið. Flugurnar 523 má skoða með því að smella hérna.