Árið 2017 skráðu 85 einstaklingar sig inn á viðburðinn á Facebook og nutu þar tæplega 300 flugna sem hnýtarar birtu þar í mánuðinum. Haldin voru fjögur hnýtingar- og kynningarkvöld í nafni Febrúarflugna í Árósum, félagsheimili Ármanna og rétt tæplega 200 gesti bar þar að garði. Það má því örugglega segja að aldrei áður hafa jafn margir fylgst með átakinu eins og þetta ár.

Að þessu sinni var ákveðið að efna ekki til samkeppni meðal hnýtara um bestu eða flottustu fluguna, heldur var ákveðið að veita 11 hnýturum viðurkenningu og þakklætisvott fyrir þátttökuna með því að draga nöfn þeirra úr hópi þeirra 30 hnýtara sem lögðu til flugur í mánuðinum. Styrktaraðilar átaksins létu í té glæsilegar vörur og gjafabréf til þessa og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Hér að neðan má sjá nöfn þeirra heppnu og þær viðurkenningar sem féllu þeim í skaut. Flugurnar 300 má skoða með því að smella hérna.