Mýsla Gylfa Kristjánssonar er sífellt að vinna sér fastari sess hjá veiðimönnum. Hún er sögð fyrsta kúpuflugan sem er hönnuð á Íslandi og sé það rétt þá er hún væntanlega kominn nokkuð til ára sinna.
Í fyrstu var hún aðeins fáanleg á einkrækju fyrir silunginn en hefur síðan stækkað og er nú fáanleg á þríkrækju fyrir laxinn sem hún ku æsa óhóflega. Lag Mýslunnar er þannig að hún snýr öfug í vatninu og festist því síður í botni heldur en ella.
Lita samsetning flugunnar er nokkuð kunnugleg, þegar kemur að silungi; svart, rautt og silfrað.
Höfundur: Gylfi Kristjánsson
Öngull: Grubber 8 – 16
Þráður: Rauður 8/0
Broddur: Silfur tinsel vafið beint á öngulinn
Vængur: Svört andarfjöður*
Kragi: Rautt dub
Haus: Vaskakeðja í yfirstærð m.v. öngul
* Hér verð ég víst að setja varan á, ég nota svarta andarfjöður án þess að vita fyrir víst að Gylfi hefði samþykkt það. Glöggur lesandi nefndi að í vænginn væri notuð fjöður úr gæs, sem er raunar ekki ólíklegt.
Bleikja | Sjóbleikja | Urriði | Sjóbirtingur |
---|---|---|---|
10,12,14,16 | 10,12,14 |
Ívar í Flugusmiðjunni tók þessa flugu til kostanna, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan:
Skemmtileg fluga, furðuleg í útliti en um leið furðulega falleg.
En hvað ætli sé best að nota í stélið á henni?
Já, þarna var ég gripinn í bólinu. Sofnaði aðeins á verðinum og kláraði ekki heimavinnuna mína. Þannig er að ég er ekki með staðfestar upplýsingar um upprunalegt efni Gylfa í vænginn, sjálfur nota ég svarta andarfjöður en ætlaði alltaf að fá staðfestingu á þessu áður en ég birti greinina, sem ég gleymdi. Því fór sem fór og ég birti þetta með þeim fyrirvara að ‘svona hnýti ég hana’.
kv.Kristján
Ég las einu sinni að í vængnum væri svört gæsafjöður. Hef alltaf lagt saman fanir úr tveimur fjöðrum og reynt að ná heilum væng með þessari fallegu sveigju sem hægt er að ná með heilum og góðum fönum, en af því ég er svo lélegur hnýtari verður vængurinn yfirleitt einhver ómynd í mörgum pörtum eins og á myndunum hér að ofan. Hún veiðir alveg þannig, til dæmis allt sem syndir í Vatnsdalsá.
Takk fyrir þetta, Baldur. Gæsafjöður gæti það verið.
Bestu kveðjur,
Kristján