Þótt aðeins einn eða tveir fjölskyldumeðlimir eigi sér stangveiði sem áhugamál þýðir það ekki að aðrir fjölskyldumeðlimir geti ekki tekið þátt í dellunni, það sannaðist um daginn þegar yngri sonur minn laumaði að mér mjög ítarlegum leiðbeiningum að flugum sem hann tók sig til og hannaði.

Með því að sameina aðal lestrarefnið sitt, sköpunargleði sína og einbeittan vilja til að koma mér á rétta braut í fluguhnýtingum urðu þeir bræður Ripp, Rapp og Rupp til á pappírnum með greinargóðum leiðbeiningum. Auðvitað lét ég á uppskriftina reyna og hér að ofan gefur að líta afraksturinn. Efniviðurinn er sóttur í marglitar föndurperlur sem límdar voru með tonnataki á hefðbundinn nymphukrók með stíflökkuðu flosi. Þessar verða örugglega með í boxinu í sumar.
1 Athugasemd