Ekki klikkar Hlíðarvatnið, þótt það hafi ekki verið neitt brjálæði. Tókum heim með okkur ein 14 stk. á bilinu 1 1/2 – 2 pund. Vatnið hefur minnkað enn meira frá því við vorum þar um miðjan júlí og mér sýnst að vanti c.a. 3 m í vatnið. Ókostur: gróðurinn er að verða verulega til trafala. Kostur: ekki þarf að leita lengi að dýpinu þar sem ‘þeir stóru’ leynast. Vorum eins og venjulega í landi Heggsstaða og tókum alla fiskana innst í vatninu. Prófuðum allt svæðið út að Álftatanga en gróðurinn var aðeins of mikill. Veiðarfæri: 6 stk. á Black Ghost, 3 stk. á Dentist, 4 stk. á svartan og gylltan spinner og 1 stk. á maðk. Frúin stimplaði sig heldur betur inn í fluguveiðinni og tók 6 stk. á Black Ghost eins og ekkert væri á meðan ég þráaðist við með Dentist og einhverjar aðrar sem ekkert gáfu.
Á meðan við drápum eins og við gátum, var yngri sonurinn á fullu að bjarga urriðaseyðum úr þornandi pollum og koma þeim í öruggt skjól í lækjarsprænunni. Kannski átti strákurinn bara metið í ferðinni, því hann bjargaði á milli 20 – 30 stk. Vonandi fer vatnsbúskapurinn á svæðinu eitthvað að rétta úr sér, það var í það minnsta rigning þegar við fórum heim.